*

Miðvikudagur, 25. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Gylfi Sigurðsson heitur í fyrstu leikjunum með Tottenham

Mynd: Nordic Photos

Gylfi Sigurðsson byrjar undirbúningstímabilið vel með enska úrvalsdeildarliðinu Tottenham. Hann kom til Tottenham frá Hoffenheim í Þýskalandi en hann spilaði seinni hluta síðasta tímabils á láni hjá enska úrvalsdeildarliðinu Swansea. Gylfi skoraði í æfingaleik gegn Stevenage fyrir skömmu og svo lagði hann upp mark Gareth Bale í gær gegn bandaríska liðinu LA Galaxy með glæsilegri sendingu utan af kanti sem rataði beint á kollinn á Bale.

Andre Villas-Boas mun eiga í smá erfiðleikum með að finna réttu stöðuna fyrir Gylfa en íslenski landsliðsmaðurinn nýtur sín best í holunni frægu fyrir aftan sóknarmennina. Í þessum leik hins vegar byrjaði hann á miðjunni og færðist framar eftir að Rafael Van der Vaart fór af velli. Hollendingurinn er fyrsti valkostur í holunni eins og stendur en okkar maður ætti að geta breytt því með áframhaldandi góðri frammistöðu.

Það styttist mjög í að enski boltinn hefjist á nýjan leik og það verður virkilega gaman að sjá hvernig Gylfa reiðir af í svona stóru félagi. Hann var aðalmaðurinn í Reading, hann var aðalmaðurinn á fyrra tímabili sínu hjá Hoffenheim og var orðinn aðalmaðurinn hjá Swansea í lok síðasta tímabils.