*

Mánudagur, 9. júlí 2012 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Enski boltinn | Keown segir Persie að vera um kyrrt hjá Arsenal

Mynd: Nordic Photos

Mikið hefur verið rætt og ritað um framtíðin Robin van Persie hjá Arsenal eftir að hann opinberaði það í seinustu viku að hann myndi ekki endurnýja samning sinn við félagið.

Síðan þá hefur van Persie, sem á eitt ár eftir af samningi sínum við skytturnar, verið orðaður við hvert stórliðið á fætur öðru eins og Barcelona, Juventus og bæði Manchester liðin svo einhver séu nefnd. Þegar Persie tilkynnti um þetta sagði hann að peningar spiluðu ekki inn í heldur samræmdust framtíðaráform liðsins ekki hans eigin plani.

Tveir fyrrverandi leikmenn Arsenal, þeir Sol Campbell og Ian Wright, hafa báðir lýst því yfir í fjölmiðlum að þeir skilji sjónarmið hollenska sóknarmannsins en nú hefur annar fyrrum leikmaður Arsenal, Martin Keown, sagt að það væri rangt skref fyrir hann að fara.

„Van Persie er dáður af stuðningsmönnum félagsins og honum er fagnað ákaft í hvert sinn sem hann spilar. Hann er orðinn fyrirliði liðsins og ég tel það rangt skref fyrir hann að færa sig um set," sagði Keown.

Enn er óljóst hvort að Persie, sem var besti leikmaður ensku úrvalsdeildarinnar á seinustu leiktíð, verði seldur í sumar eða spili næsta tímabil og fái svo að fara frítt.