*

Miðvikudagur, 4. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Balotelli fer fram á faðernispróf

Mynd: Nordic Photos

Ítalska framherjanum Mario Balotelli, sem leikur með Manchester City, bárust á mánudag þau gleðitíðindi að hann ætti von á erfingja; Raffaella Fico fyrrverandi unnusta hans tilkynnti þá að hún væri kona ei einsömul og vildi endurvekja samband sitt við Mario.  Framherjinn knái má hins vegar ekki heyra á slíkt minnst og efast stórlega um að Fico sé barnshafandi af hans völdum.

„Ég vil helst ekki ræða einkalíf mitt í fjölmiðlum, en sé mig nú knúinn til að skýra í eitt skipti fyrir öll samband mitt við Raffaella Fico," segir Balotelli í yfirlýsingu sem hann sendi fjölmiðlum.  „Sambandi okkar lauk í apríl og við höfum hvorki hist né verið í sambandi síðan.  Ég hef ekkert skipt mér af henni og hennar lífi og hún hefur ekkert skipt sér af mér.  Raffaella veit það fullvel að ég hafði ekki og hef ekki nokkurn áhuga á að taka upp samband við hana aftur."
„Ég hef, af virðingu fyrir þeim tíma sem við áttum saman, ekki viljað ræða hana eða samband okkar í fjölmiðlum og skipti þá litlu þótt á kreiki væru sögusagnir og ósannindi.  Fyrir fáeinum dögum barst mér til eyrna að hún væri barnshafandi.  Ég hafði samband við hana og þegar ég spurði hana út í þessar fregnir staðfesti hún þær.  Það fer illa í mig að mér skuli tilkynnt þetta með þessu hætti og það þegar hún er gengin fjóra mánuði á leið.  Ég skil ekki hvers vegna hún hafði ekki samband við mig til að tilkynna mér um þungunina."

Mynd: Nordic Photos

„Ég mun axla mína ábyrgð þegar faðernið hefur verið staðfest.  Mér líkar það illa að hún hafi gert sér féþúfu úr þunguninni, selt myndir og viðtöl. Raffaella er það vel þekkt að hún á ekki að þurfa að nota svona hluti til að koma sér á framfæri.  Þetta er í fyrsta og eina sinn sem ég tjái mig um þetta mál opinberlega.  Ég mun ekki svara spurningum eða athugasemdum, óháð því hvað Raffaella segir eða skrifar."