*

Miðvikudagur, 4. júlí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

1.deild karla | Hádramatískt jafntefli á Akureyri | Úrslit kvöldsins

Mynd: Sævar Geir Sigurjónsson

Í kvöld fóru fram nokkrir athyglisverðir leikir í neðri deildum karla og kvenna í knattspyrnu. Í 1.deild karla tóku KA-menn á móti Haukum norðan heiða og Þróttarar sóttu Víkinga heim. Í leik KA og Hauka leit allt út fyrir að Akureyringar væru að sigla sigrinum í höfn en Haukamenn neituðu að gefast upp og jöfnuðu leikinn í uppbótartíma. Markið var ansi umdeilt en miklar deilur voru á vellinum um það hvort markið hefði átt að standa eður ei. Aðstoðardómarinn var viss í sinni sök og flaggaði til marks um að boltinn hafi farið allur yfir línuna og Hafnfirðingarnir fögnuðu vel og innilega.

Gunnlaugur Jónsson, þjálfari Akureyrarliðsins var ansi óhress með það að aðstoðardómarinn sem flaggaði markið, hafi verið settur á þennan leik eftir atburði á síðustu misserum. Hann hafði sumsé áður komið við sögu sem dómari hjá einum af yngri flokkum KA fyrir skömmu þar sem allt fór í háaloft í leikslok.  KA fékk þarna sitt níunda stig í deildinni en Haukamenn kræktu í sitt sextánda stig og sitja í 3.sæti deildarinnar.

Í hinni viðureign 1.deildar karla voru það Reykjavíkurliðin Víkingur og Þróttur sem áttust við. Þar enduðu leikar 0-1, Þrótturum í hag. Eina mark leiksins kom á 15.mínútu úr vítaspyrnu en það þarf víst að skora úr þeim líka. Þróttarar fóru með sigrinum upp fyrir Víkingana á markatölu en bæði lið eru með 10 stig í deildinni og sitja hlið við hlið í 7. og 8.sæti deildarinnar.

Í 2.deild karla gerðust undur og stórmerki. Þrír leikjanna voru þó frekar atkvæðalitlir. HK og Hamar gerðu markalaust jafntefli í Kópavoginum. Njarðvík og KF gerðu 1-1 jafntefli. KV beið lægri hlut á heimavelli gegn toppliði deildarinnar, Reyni frá Sandgerði, sem styrkti stöðu sína á toppnum með góðum útisigri á góðu KV-liði. Þetta var jafnframt annað tap Vesturbæjarliðsins í jafnmörgum leikjum, eftir að hafa spilað taplausir fyrstu sjö leiki mótsins. En tíðindi kvöldsins komu frá Hvolsvelli. Þar tók HKR á móti spræku liði Aftureldingar. Leikmenn Mosfellsbæjarliðsins eru búnir að vera á mikilli siglingu undanfarið og gerðu m.a. góða atlögu að því að slá Pepsídeildarlið Fram út úr bikarnum á dögunum. HKR gerði sér lítið fyrir og slátraði Aftureldingu 4-0. Staðan í hálfleik var 3-0. Markaskorarar eru ókunnir fyrir utan mark tvö í leiknum en það var Þórhallur Lárusson sem gerði það ágæta mark. Ansi athyglisverðar fregnir úr 2.deildinni en fyrir leikinn hafði liðið frá Hvolsvelli spilað 8 leiki í röð án sigurs. Eitt stig var komið á töfluna og markatalan fyrir leikinn var ekki glæsileg, 5-21, á meðan Afturelding sat í 2.sæti deildarinnar með 16 stig. En svona er 2.deildin, það getur allt gerst.

Úrslit kvöldsins:

1.deild karla
KA 2-2 Haukar
1-0 Ævar Ingi Jóhannesson 4.mín.
2-0 Gunnar Valur Gunnarsson 68.mín.
2-1 Björgvin Stefánsson 72.mín.
2-2 Benis Krasniqi 90.mín.

Víkingur R. 0-1 Þróttur R. 
0-1 Erlingur Jack Guðmundsson 15.mín. vítaspyrna

2.deild karla
HK 0-0 Hamar

Njarðvík 1-1 KF
0-1 Halldór Logi Hilmarsson 35.mín.
1-1 Rafn Markús Vilbergsson 45.mín. vítaspyrna

KV 0-1 Reynir Sandgerði
0-1 Guðmundur Gísli Gunnarsson 64.mín.

KFR 4-0 Afturelding
1-0 12.mín.
2-0 Þórhallur Lárusson 14.mín.
3-0 22.mín.
4-0 90.mín.

3.deild karla
SR 0-7 KB

Ægir 0-1 KFS
Léttir 4-2 Ísbjörninn
Stál-úlfur 2-2 Berserkir

1.deild kvenna
ÍA 5-0 ÍR

Álftanes 1-0 HK/Víkingur

Myndir: Sævar Geir Sigurjónsson