*

Þriðjudagur, 26. júní 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Ítalski boltinn | Mazzarri og Quagliarella verða yfirheyrðir

Mynd: Nordic Photos

Walter Mazzarri þjálfari ítalska knattspyrnuliðsins Napoli og Fabio Quagliarella leikmaður Ítalíumeistara Juventus eru í hópi fimmtán einstaklinga sem yfirheyrðir verði á allra næstu dögum vegna veðmálahneykslisins sem skekið hefur ítalska boltann undanfarin misseri.  Spjótin beinast að Napoli-mönnum og fari allt á versta veg þykir líklegt að liðið hefji næstu leiktíð í bullandi stigaskuld.

Hneykslismálið, sem snýst um hagræðingu úrslita nokkurra leikja í tveimur efstu deildum ítölsku knattspyrnunnar og rakið er til veðmálafyrirtækis í Asíu sem hefur starfsstöð í Ungverjalandi, hefur verið til rannsóknar í dágóðan tíma og nokkrir mikilsmetnir knattspyrnumenn hafa verið færðir til yfirheyrslu.  Athygli rannsakenda er nú sögð beinast að þátttöku nokkurra manna sem tengjast knattspyrnuliði Napoli, Quagliarella lék einmit með liðinu fyrir tveimur árum og Mazzarri er þar þjálfari, en auk þeirra verða yfirheyrðir kappar á borð við Paolo Cannavaro, sem er yngri bróðir Fabio og talsvert síðri knattspyrnumaður, og markvörðurinn Matteo Gianello, báðir leikmenn Napoli.

Rannsakendur hafa spýtt í lófana síðustu vikur, dómar hafa þegar verið felldir yfir Atalanta og Pescara sem hefja komandi leiktíð í stigaskuld, og yfirvofandi yfirheyrslur þykja benda til þess að vinna eigi hratt og örugglega í Napoli-málum svo að fella megi úrskurð áður en næsta sparktíð hefst.