*

Þriðjudagur, 26. júní 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Giroud er genginn til liðs við Arsenal

Mynd: Nordic Photos

Forráðamenn enska úrvalsdeildarliðsins Arsenal hafa fest kaup á franska framherjanum Olivier Giroud frá Frakklandsmeisturum Montpellier.  Giroud, sem er 25 ára, sló í gegn með spútnikliði frönsku knattspyrnunnar á síðustu leiktíð eftir talsvert neðrideildarbrölt, er talinn hafa kostað Arsenal 12 milljónir punda og skrifaði undir langtímasamning.

Giroud hóf knattspyrnuferilinn hjá Grenoble og lék með Tours í frönsku annarri deildinni áður en hann gekk til liðs við Montpellier í júlí 2010.  Þar tók hann strax til óspilltra málanna, skoraði eins og andsetinn maður og forráðamenn Montpellier sá þann kost vænstan í stöðunni að bjóða honum nýjan samning tæpu ári eftir að hann gekk til liðs við félagið.  Giroud vakti mikla athygli fyrir framgöngu sína á síðustu leiktíð, íþróttafréttamenn Le Parisien smelltu á hann viðurnefninu „þokkafulli framherjinn" og Giroud átti stóran þátt í því að Montpellier skákaði stórliði Paris St.Germain í baráttunni um Frakklandsmeistaratitilinn.

Arsene Wenger, knattspyrnustjóri Arsenal, er himinlifandi með þessa viðbót við leikmannahópinn.
„Hann er líkamnlega sterkur, frábær skallamaður og vinnusemi hans er til eftirbreytni.  Við erum himinlifandi yfir því að Olivier skyldi ákveða að ganga til liðs við okkur, hann bætir nýrri vídd í sóknarmöguleika okkar á komandi leiktíð.  Hann hefur sannað að hann getur látið til sín taka í fremstu röð bæði með félagsliði og landsliði og hann lagði þung lóð á vogarskálarnar í sókn Montpellier að franska meistaratitlinum."