*

Þriðjudagur, 26. júní 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

EM 2012 | Chiellini æfði með Ítölum í gær og gæti spilað gegn Þjóðverjum

Mynd: Nordic Photos

Ítalski varnarjaxlinn Giorgio Chiellini, sem missti af leiknum gegn Englendingum í 8-liða úrslitum EM í knattspyrnu á sunnudag vegna meiðsla, æfði með landsliðsfélögum sínum í gær og ekki er loku fyrir það skotið að hann skundi til vallar þegar Ítalir mæta Þjóðverjum í undanúrslitum á fimmtudag.

Chiellini, sem verið hefur fastur póstur í ítölsku vörninni undanfarin misseri, meiddist í lokaleik riðlakeppninnar, sigurleik Ítala gegn Írum, og óttast var að hann yrði frá í dágóðan tíma.  Batinn hefur hins vegar verið með ágætum, Chiellini tók vel á því á æfingunni í gærmorgun og Ítalir gera sér góðar vonir um að hann verði klár í slaginn gegn Þjóðverjum á fimmtudag.  Ekki veitir af sæmilega frískum fótum þar sem bæði Daniele De Rossi og Ignazio Abate eiga við smávægileg meiðsli að stríða og Christian Maggio er í leikbanni.