*

Þriðjudagur, 26. júní 2012 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

Borgunarbikar Karla | KR vann Breiðablik | Víkingur sló Fylki út

Mynd: Hilmar Þór

Sextán liða úrslitum í Borgunarbikar karla lauk í kvöld þegar að tveir leikir fóru fram. Í Vesturbænum hafði KR betur gegn Breiðablik með þremur mörkum gegn engu og í Fossvoginum vann 1. deildarlið Víkings sigur á Fylki. KR og Víkingur verða því í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin í hádeginu á morgum.

 KR-ingar áttu harma að hefna þegar þeir mætti Breiðabliki í Borgunarbikarnum í kvöld en liðin mættust einmitt í deildinni í seinustu viku þar sem Blikarnir höfðu betur. Og gestirnir úr Kópavogi byrjuðu leikinn betur og voru líklegri til þess að skora fyrsta markið. Það kom því gegn gangi leiksins þegar að KR náði forystunni á 18. mínútu. Þá reyndi Kristinn Jónsson, leikmaður Blika, að hreinsa frá en varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið net. Blikum gekk bölvanlega að koma sér aftur inn í leikinn eftir markið og sköpuðu sér litla hættu. Staðan í hálfleik 1-0 fyrir KR.
Jafnræði var með liðinu framan af síðari hálfleik. Bæði lið fengu nokkur færi án þess þó að ná að skora. Það dró loksins til tíðinda á 86. mínútu þegar að Kjartan Henry Finnbogason kom KR í 2-0 þegar hann kórónaði góða sókn með marki. Tveimur mínútum síðar fékk Ingvar Þór Kale, markvörður Breiðabliks, rauða spjaldið þegar hann felldi Kjartan Henry utan teigs. Blikar voru búnar með sínar skiptinar og því þurfti Gísli Páll Helgason , sem jafnan leikur sem bakvörður, að verja mark Blika seinustu mínúturnar. Þegar langt var komið fram í uppbótartíma leiksins þurfti Gísli Páll að hirða boltann úr netinu þegar að Þorsteinn Már Ragnarsson skoraði eftir snarpa sókn KR-inga. Lokatölur 3-0 og KR verður í pottinum þegar dregið verður í átta liða úrslitin á morgun.

Fyrstudeildarlið Víkings tók á móti Pepsídeildarliði Fylkis í Fossvoginum í kvöld. Fyrri hálfleikurinn var heilt yfir tíðndalítill en eitt mark leit þó dagsins ljós í hálfleiknum. Þá náði hinn 17 ára gamli Agnar Darri Sveinsson að skora fyrir Víking en markið skoraði hann af stuttu færi eftir hornspyrnu. Fylkismenn voru nokkrum sinnum nálægt því að jafna en höfðu ekki erindi sem erfiði í fyrri hálfleik. Staðan í leikhléi 1-0 fyrir Víking.
Fylkismenn voru ögn líklegri aðilinn til þess að skora á upphafsmínútum síðari hálfleiks en þó voru það Víkingar sem skourðu næsta mark. Þá tók Hjörtur Hjartarson aukaspyrnu sem fór í varnarvegg Fylkis og þaðan barst boltinn á Aron Elís Þrándarson sem skoraði. Fylkismenn voru ekki á þeim buxunum að gefast upp og náðu að minnka muninn þegar að stundarfjórðungur var til leiksloka. Þá skoraði Atli Freyr Guðnason laglegt mark eftir sendingu Björgólfs Takefusa. Nær komust Fylkismenn ekki og fyrstudeildarlið Víkings fagnaði því nokkuð óvæntum sigri. Sigurinn er eflaust sætur fyrir Ólaf Þórðarson, þjálfara Víkings, en hann þjálfaði einmitt Fylki áður en hann tók við Víkingum í vetur. Víkingur verður, líkt og KR í pottinum á morgun þegar dregið verður í 8-liða úrslitin.

Úrslit og markaskorarar kvöldsins:

KR 3-0 Breiðablik
1-0 Kristinn Jónsson 18. mín. (Sjálfsmark)
2-0 Kjartan Henry Finnbogason 86.mín.
3-0 Þorsteinn Már Ragnarsson 90.mín
Rautt Spjald: Ingvar Þór Kale (Breiðablik) 88.mín.

Víkingur 2-1 Fylkir
1-0 Agnar Darri Sveinsson 15.mín.
2-0 Aron Elís Þrándarson 63.mín.
2-1 Árni Freyr Guðnason 75.mín.

Myndir: Hilmar Þór