*

Mánudagur, 25. júní 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Ruddy framlengdi samning sinn við Norwich

Mynd: Nordic Photos

John Ruddy, markvörður enska úrvalsdeildarliðsins Norwich City, hefur framlengt samning sinn við félagið til fjögurra ára og þar með slegið á vangaveltur um að hann myndi fylgja Paul Lambert, fyrrverandi stjóra Norwich, til Aston Villa.  Ruddy var valinn í EM-hóp Englendinga, en varð frá að hverfa vegna meiðsla.

John Ruddy er 25 ára heljarmenni sem hóf ferilinn hjá Cambridge United og var á mála hjá Everton um fimm ára skeið.  Hann fékk reyndar fá tækifæri á Goodison Park, var lánaður hingað og þangað og söðlaði um fyrir tveimur árum, gekk til liðs við Norwich City sem þá lék í næstefstu deildinni á Englandi.  Ruddy átti stóran þátt í árangursríkri sókn Norwich að úrvalsdeildarsæti og ekki síður í baráttunni fyrir að halda sætinu í deildinni á nýafstaðinni leiktíð.  Forráðamenn Norwich og nýráðinn stjóri, Chris Houghton, eru himinlifandi með þá ákvörðun Ruddy að halda kyrru fyrir hjá Kanarífuglunum, en Houghton lét m.a. hafa það eftir sér að markvörðuinn knái væri lykilmaður í þeirri viðleitni félagsins að festa sig í sessi í ensku úrvalsdeildinni.