*

Laugardagur, 23. júní 2012 | Þorsteinn Haukur Harðarson | thorsteinn@sport.is | @thorsteinnhauku á Twitter

EM 2012 | Messi vonar að Spánn vinni Evrópumótið

Mynd: Nordic Photos

Hinn ótrúlegi Lionel Messi, sem leikur með Barcelona og argentínska landsliðinu, vonar að Spánverjar vinni Evrópumótið í knattspyrnu. Margir af liðsfélögum hans hjá Barcelona eru í spænska liðinu en Messi segist þó sjálfur ekki fylgjast mikið með mótinu.

Messi er þessa stundina staddur í Kólumbíu að spila góðgerðarleik. Hann segist vona að liðsfélögum sínum frá Barcelona í spænska liðinu vegni vel á mótinu og að þeir snúi til baka með Evróputitilinn í farteskinu.

„Í sannleika sagt hef ég ekki fylgst mikið með mótinu og veit ekki hvaða lið er líklegast til þess að sigra eins og er. Ég vona samt að Spánn vinni þetta enda á ég marga liðsfélaga og vini í liðinu," sagði Messi.

Messi var einnig spurður út í ummæli Cristiano Ronaldo sem gagnrýndi á dögunum frammistöðu Messi með argentínska landsliðinu á Copa America í fyrra. „Varðandi þau ummæli frá Ronaldo þá hef ég nákvæmlega ekkert um það að segja," sagði Messi.