*

Föstudagur, 25. maí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Martinez ræðir við eigendur Liverpool í Miami

Mynd: Nordic Photos

Roberto Martinez, knattspyrnustjóri enska úrvalsdeildarliðsins Wigan, er staddur í Miami þar sem hann fundar með eigendum Liverpool varðandi stjórastarfið á Anfield.  Dave Whelan, eigandi Wigan, hefur gefið Martinez frest til 5.júní til að taka ákvörðun um það hvort hann þekkist boð Liverpool eða ekki.

Fundurinn með Martinez markar upphaf hinnar eiginlegu leitar eigenda Liverpool að arftaka Kenny Dalglish, sem tók hatt sinn og staf fyrir níu dögum, en óformlegar þreifingar leiddu í ljós að hvorki Brendan Rodgers, stjóri Swansea, né Frank de Boer hjá Ajax höfðu áhuga á að setjast í stjórastólinn á Anfield.  Roberto Martinez er talinn líklegur til að þekkjast boð Liverpool-manna, en hann hafnaði sambærilegu boði frá Aston Villa fyrir réttu ári.  Fari allt á versta veg er talið líklegt að eigendur Liverpool leiti til Andre Villas-Boas, sem lítið hefur farið fyrir síðan hann var látinn taka pokann sinn hjá Chelsea.