*

Fimmtudagur, 24. maí 2012 | Ritstjórn Sport.is | frettir@sport.is | @sport_is á Twitter

Enski boltinn | Swansea og Hoffenheim ná saman um kaupverð á Gylfa

Gylfi Þór í baráttunni við Patrice Evra leikmann Manchester United

Þær fréttir voru að berast frá Bretlandseyjum að enska úrvalsdeildarfélagið Swansea og þýska félagið Hoffenheim hefðu náð saman um kaupverð á íslenska landsliðsmanninum Gylfa Þór Sigurðssyni. Þetta kemur fram hjá Sky Sports fréttastofunni.

Gylfi Þór, sem kom til Swansea á láni í janúar, hefur farið á kostum í ensku úrvalsdeildinni í vetur og var m.a valinn leikmaður marsmánaðar í deildinni en hann gerði 7 mörk fyrir félagið á leiktíðinni og olli miklum usla í vörnum andstæðinga liðsins.

Gylfi var orðaður við mörg stór félög í Evrópu eftir frammistöðu sína með Swansea í vetur en nú virðist sem velska liðið ætli að landa honum sem er gríðarlega mikilvægt fyrir félagið. Kaupverðið hefur ekki verið gefið upp en það er talið vera í kringum 7 milljónir punda. Ljóst er að Gylfi Þór verður dýrasti leikmaður í sögu félagsins semji hann við félagið.